31.7.2014 19:15

Fimmtudagur 31. 07. 14

Fanney Birna Jónsdóttir, viðskiptaritstjóri Fréttablaðsins, skrifar í húskarlahorn blaðsins í dag:

 „Björn Bjarnason skrifar pistil á Evrópuvaktina þar sem hann gerir stöðu umsóknar Íslands að Evrópusambandinu að umtalsefni. Hann vitnar í yfirlýsingu Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB, þar sem Juncker sagði enga frekari stækkun á sambandinu fyrirsjáanlega næstu fimm árin. Björn leggur út frá  [svo!] þessu og segir að það sé í besta falli langsótt en í raun rangt að fella Ísland undir ríki í viðræðum við ESB. Hið eina sem eftir standi af umsóknarferlinu sé Evrópustofa sem beiti sér fyrir kvikmyndasýningum og tónleikum og minni helst á MÍR, Menningartengsl Íslands og Ráðstjórnarríkjanna, Sovétvinafélagið í kalda stríðinu. Björn virðist gleyma því að sendiráð ESB á Íslandi svaraði fyrirspurn Fréttablaðsins fyrr í mánuðinum þveröfugt - sagði sambandið tilbúið að hefja viðræður á ný hvenær sem Íslendingar kunna að kjósa.“

Fanney Birna lætur þess ógetið að Jean-Claude Juncker sagði að haldið yrði áfram viðræðum við umsóknarríki þótt ESB mundi ekki stækka fyrr en eftir fimm ár. Þetta sagði hann um sama leyti og fimm ár voru liðin frá því að alþingi samþykkti aðildarumsóknina en þá var ráðgert að það tæki um 18 mánuði þar til Íslendingar gætu tekið af skarið um aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Allt fór þetta á annan veg. Viðræðunum við ESB var hætt í janúar 2013 án þess að þær hefðu hafist um landbúnað og sjávarútveg, helstu ágreiningsmálin. Í apríl 2013 féllu ESB-flokkarnir á prófi kjósenda, ný ríkisstjórn vill ekki viðræður við ESB.

Fanney Birna vitnar í einhver ummæli frá sendiráði ESB á Íslandi. Ástæðan fyrir að viðræðunum var hætt í janúar 2013 var að síðan í mars 2011 hafði ESB ekki afhent rýniskýrslu um sjávarútvegsmál. Lætur sendiráð ESB nú eins og þessi skýrsla liggi á lausu? Líklegra er að sendiráðið tali aðeins eins og það heldur að ESB-aðildarsinnar vilji að það tali. Veruleikinn er annar og er þetta ekki í fyrsta sinn sem gripið er til blekkinga gagnvart Íslendingum í ESB-málinu.