24.7.2014 22:50

Fimmtudagur 24. 07. 14

Sumarhiti hefur verið svo mikill í Kaupmannahöfn að stjórnendur dýragarðsins pöntuðu hálft tonn af ís frá Grænlandi til að kæla ísbirnina tvo í vörslu þeirra. Birnirnir fögnuðu þegar ísnum var kastað í tjörn í gryfju þeirra miðvikudaginn 23. júlí. Ekki minnkaði gleði dýranna þegar þeir fengu einnig frosinn fisk.

Fréttin um þetta minnir á góðviðrið í nágrannalöndum okkar. Hitinn í Osló er um 30 gráður. Þar eru allir á varðbergi vegna viðvörunar um hættu á hryðjuverkaárás. Óttast er að islamistar frá Noregi sem tekið hafa þátt í borgarastríðinu í Sýrlandi hafi engan hemil á grimmd sinni við heimkomu.

Kristið fólk í borginni Mósul sætir ofsóknum eftir að islamistar frá Sýrlandi lögðu borgina undir sig og stofnuðu nýtt ríki sem heitir á arabísku Da'ech, Islamskt ríki. Fréttir herma að ekki sé nein upplausn í hinu nýja ríki, sem teygir sig yfir hluta Sýrlands og Íraks, heldur gangi valhafar og fulltrúar þeirra skipulega til verks. Eftir valdatökuna hafi þeir beitt sér fyrst gegn fulltrúum og hermönnum fyrrverandi valdhafa. Hinn 16. júlí hafi þeir síðan snúið sér að hinum kristnu.

Hús kristinna eru merkt með bókstafnum N sem stendur fyrir nassarah en orðið er notað um kristna í Kóraninum. Sólarhring eftir að húsin höfðu verði merkt var ritað á þau: „Eign Islamska ríkisins.“ Við svo búið voru kristnum settir úrslitakostir. Fyrir 19. júlí urðu þeir að ákveða hvort þeir köstuðu trú sinni, gerðust múslímar og greiddu sérstakan skatt eða hypjuðu sig á brott. Veldu þeir hvorugan kostinn beið þeirra að sverðið.

Þeir sem ákváðu að flýja fengu ekki að halda neinu öðru en fötunum sem þeir klæddust. Í Le Monde segir á undanförnum tíu árum hafi um 400.000 kristnir flúið frá Írak.