6.7.2014 22:10

Sunnudagur 06. 07. 14

Samfelld röð bíla var frá Hellu til Reykjavíkur eftir klukkan 16.00 í dag þegar gestir streymdu af landsmóti hestamanna samhliða þeim sem héldu í áttina að höfuðborgarsvæðinu að lokinni helgardvöl á Suðurlandi. Mannfjöldinn í Fljótshlíðinni er svo mikill um hverja helgi að jafnast á við útihátíð.

Umferðin gekk vel en var hæg þegar ekið var að austan inn í Selfoss og út úr bænum yfir Ölfusábrúna að vestan. Logn var undir Ingólfsfjalli og á Hellisheiði svo að ekki var hætta á að kerrur eða hjólhýsi fykju. Mikið rigndi hins vegar á heiðinni en það birti þegar ekið var inn í þéttbýlið.

Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, segir í pistli á Eyjunni:

„Már [Guðmundsson seðlabankastjóri] gaf reyndar á sér nokkurn höggstað með málaferlum sínum gegn bankanum vegna launakjara sinna og annars sem því hefur fylgt. Það er þó spurning hvort sú yfirsjón eigi að vega meira en augljós fagleg hæfni hans á starfssviðinu.“

Í þessum orðum birtist óvenjuleg mildi prófessorsins sem fer hamförum í dómum gegn einstaklingum án þess að þeir hafi gefið á „sér nokkurn höggstað“ annan en þann að vera annarrar pólitískrar skoðunar en prófessorinn. Stefán segist ekki vera í neinum flokki og hefur þegið bitlinga bæði af Jóhönnu Sigurðardóttur (Samfylkingu) og Eyglóu Harðardóttur (Framsóknaflokki). Hann finnur jafnan einhverja sjálfstæðismenn til að áfellast og þeim mun frekar ef hann telur þá hafa tengsl við Davíð Oddsson.

Már Guðmundsson hefur leitt í ljós undanfarin fimm ár að „augljós fagleg … hæfni á starfssviðinu“ jafngildir ekki hæfni til að auka traust í garð seðlabankans eða trúverðugleika hans. Einmitt þess vegna var embætti seðlabankastjóra auglýst í stað þess að Már sæti áfram á friðarstóli.