1.7.2014 21:10

Þriðjudagur 01. 07. 14

Miðað við allt sem sagt hefur verið um breytingar á stjórnarráðinu og stjórnsýslunni eftir árið 2008 er með ólíkindum að núverandi staða hafi myndast vegna ákvörðunar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að flytja Fiskistofu til Akureyrar.

Sé rétt munað var gengið til breytinga á stjórnarráðinu og til samþykktar nýrra laga um þau í þeim tilgangi að auka samráð og auðvelda almenningi að koma að sjónarmiðum áður en ákvarðanir væru teknar. Miðað við það sem þá var sagt hefði mátt ætla að allir venjulegir, stjórnsýslulegir varnaglar hefðu verið slegnir til að tryggja framúrskarandi stjórnsýslu til frambúðar.

Fréttir af ákvörðuninni herma að hún hafi verið tekin í stjórnsýslulegu tómarúmi og án þess að kannað væri til hlítar hvort lög heimiliðu hana. Við hina lítt ígrunduðu breytingu á stjórnarráðslögunum voru felld á brott ákvæði fyrri laga sem veittu ráðherra heimild sem hefði tekið af tvímæli við aðstæður eins og nú eru vegna Fiskistofu.

Þetta er þó aðeins önnur hlið máls hin er pólitísk, ákvarðanir stjórnmálamanna eru þó marklausar gæti þeir ekki lögboðinna reglna. Ákvörðun um flutning ríkisstofnunar frá Hafnarfirði tekur enginn nema í samvinnu við forsætisráðherra. Ráðuneyti hans hefur verið eflt til íhlutunar í málefni annarra ráðuneyta til að tryggja hollustu við góða stjórnsýsluhætti.

 

Hvaða skoðun sem menn hafa á flutningi Fiskistofu nær hann ekki fram að ganga nema löglega sé staðið að ákvörðun um hann. Var það gert? Hvað segja sérfræðingarnir í stjórnarráðinu sjálfu? Þeir sem smíðuðu hinar nýju reglur eftir 2008.