27.6.2014 19:00

Föstudagur 27. 06. 14

Nýjasti þáttur minn á ÍNN frá miðvikudeginum 25. júní þar sem ég ræddi við Börk Gunnarsson, blaðamann á Morgunblaðinu, um ástandið í Írak er kominn inn á netið og má sjá hann hér.

Það var valtað yfir David Cameron, forsætisráðherra Breta, á fundi leiðtogaráðs ESB í dag þegar 26 af 28 leiðtogum ESB-ríkja ákváðu að láta andstöðu hans við tilnefningu Jean-Claudes Junckers í forsæti framkvæmdastjórnar ESB sem vind um eyru þjóta. Viktor Orban frá Ungverjalandi var hinn eini sem var sama sinnis og Cameron. Hér má lesa nánar um þessi átök.

Niðurlæging Camerons er í hrópandi andstöðu við þá skoðun sem heyrist stundum hér á landi frá þeim sem líta á Evrópusambandið sem eitthvað annað og meira en samskiptavettvang ríkisstjórna. Aðildar- og viðræðusinnar á Íslandi segja, þegar þeir eru komnir út í horn, að innan ESB séu samskiptin á svo siðmenntuðu stigi að þar detti engum í hug að valta yfir þann sem sé á öndverðum meiði, alltaf sé valin leið virðingar og sátta. Þetta er auðvitað bábilja eins og svo margt annað sem þetta fólk segir til að fegra málstað sinn.

Að sjálfsögðu er ekki hikað við að valta yfir Breta séu þeir með sérsjónarmið. Michel Rocard, fyrrverandi forsætisráðherra Frakka, taldi nýlega best fyrir alla að Bretar hyrfu  einfaldlega úr ESB þeir spilltu svo mjög fyrir öllu innan dyra. Mátti skilja hann á þann veg að Bretar hefðu ekki þroska til að taka þátt í samstarfinu innan ESB. Aðfararirnar við að velja forseta framskvæmdastjórnarinnar bera ekki með sér mikinn lýðræðisþroska þegar látið er í veðri vaka að velja verði Jean-Claude Juncker vegna sigurs EPP-flokksins í ESB-þingkosningunum.

Með valinu á Juncker er ýtt undir völd og áhrif ESB-þingsins á kostnað þjóðþinganna 28 og þar með vegið enn einu sinni að þeim aðilum innan ESB sem starfa óskorað í umboði kjósenda í einstökum ríkjum. Þessir kjósendur þekkja þá almennt sem þeir kjósa á þjóðþingin en hafa ekki minnstu hugmynd um hverjir sitja á ESB-þinginu. Lýðræðið innan ESB er skrumskæling af lýðræðinu, hannað hefur verið stjórnkerfi sem ekki yrði liðið í neinu lýðræðisríki.