24.6.2014 21:40

Þriðjudagur 24. 06. 14

Það er til marks um breytingar á andrúmsloftinu í samfélaginu eftir hrun að gagnrýni á sérstakan saksóknara herðist og nú beinast spjótin einnig að dómurum. Þessi þróun er rannsóknarefni og ætti að bera hana saman við það sem gerist í öðrum löndum þegar þeir eru sóttir til saka sem vekja áhuga fjölmiðla eða kjósa að flytja mál sitt í þeim samhliða því sem þau eru reifuð frammi fyrir dómurunum.

Baugsmálið 2002 til 2008 var að verulegu leyti háð í fjölmiðlum. Í bók minni Rosabaugi yfir Íslandi má sjá hve margir tóku til máls á opinberum vettvangi til varnar Jóni Ásgeiri og félögum og hve hart var ráðist að þeim sem Baugsmenn töldu standa að baki málarekstrinum gegn sér. Þar svifust menn ekki neins og leitast var við að breyta málinu í pólitískt átakamál. Umræðurnar nú hafa ekki tekið þá stefnu.

Fyrir nokkrum árum hitti ég ítalskan prófessor í stjórnmálafræði. Við ræddum um stöðu Silvios Berlusconis sem þá var á hátindi valdsins sem forsætisráðherra en sætti rannsókn lögreglu. Prófessorinn var sannfærður um að þetta væru pólitískar ofsóknir og fór mörgum orðum um þær. Nú hefur Berlusconi (77 ára) verið dæmdur út af ítalska þinginu og sinnir samfélagsþjónustu í refsingarskyni. Vafalaust telja ýmsir stuðningsmenn Berlusconis enn að hann sé fórnarlamb pólitískra óvina, lögreglu, saksóknara og dómara.