18.6.2014 22:50

Miðvikudagur 18. 06. 14

Í dag ræði ég við Rósu Guðbjartsdóttur, oddvita sjálfstæðismanna og formann bæjarráðs í Hafnarfirði, í þætti mínum ÍNN. Næst má sjá þáttinn á miðnætti og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Dick Cheney, fyrrv. varaforseti Bandaríkjanna, skrifar harðorða gagnrýni á Barack Obama Bandaríkjaforseta í The Wall Street Journal í dag og segir hann ráðalausan vegna stöðunnar í Írak annars staðar. Hann segir:

„Hætta er á Írak falli í hendur róttæks hryðjuverkahóps íslamista og Obama talar um loftslagsbreytingar. Hryðjuverkamenn ná meira landi og auðlindum á sitt vald en nokkru sinni fyrr í sögunni og hann fer í golf. Hann virðist gjörsamlega andvaralaus eða honum virðist standa á sama um þá staðreynd að endurvakið al-Kaída skapar skýra og brýna hættu fyrir Bandaríkin.[…]

Árið 1983 sagði Ronald Reagan forseti: „Megi eitthvað læra af sögunni er það að einfeldningsleg friðþæging og óskhyggja gagnvart andstæðingum okkar er tóm vitleysa. Í því felast svik við fortíð okkar og aðför að frelsi okkar.“ Obama forseti stefnir að því að hans verði minnst sem mannsins sem sveik fortíð okkar og eyddi frelsi okkar.“