16.6.2014 22:15

Mánudagur 16. 06. 14

Þess verður minnst á morgun að 70 ár eru liðin frá því að lýðveldið Ísland var stofnað. Á þjóðhátíðardeginum árið 2014 láta sumir enn eins og ESB-aðildarumsóknin leiði að lokum til einhvers sem styrki lýðveldið þótt framkvæmd hennar jafngilti afsali á yfirráðum fiskveiðilögsögunnar og fiskveiðistjórnin flyttist til Brussel. Yrði það mesta aðför að efnahagslegum grundvelli lýðveldisins í sögu þess.

Með þingtæknilegum aðferðum tókst á liðnum vetri að koma í veg fyrir að vilji kjósenda um afturköllun ESB-umsóknarinnar næði fram að ganga. Ríkisstjórninni var ekki nauðsynlegt að leggja tillögu um afturköllun umsóknarinnar fyrir alþingi. Strax eftir myndun sína gat ríkisstjórnin lýst yfir við framkvæmdastjórn ESB að umsóknin væri úr sögunni. Reynsluleysi eða röng ráðgjöf varð til þess að sú leið var ekki farin.

Einhliða tilkynning utanríkisráðherra eða forsætisráðherra sem báðir hafa umboð til að binda þjóðina gagnvart öðrum ríkjum eða alþjóðasamtökum dugar til að afturkalla ESB-umsóknina. Enginn efast um að þingmeirihluti er að baki slíkri ákvörðun. Deilan á þingi snerist um inntak óljósra yfirlýsinga um þjóðaratkvæðagreiðslu í tengslum við framhald viðræðna við ESB.

Engum ætti að vera mikilvægara en forsætisráðherra að óvissu sé eytt gagnvart ESB. Hinn 17. júní 2010 veitti leiðtogaráð ESB framkvæmdastjórn ESB umboð til að hefja aðildarviðræður við ríkisstjórn Íslands. „Með ákvörðun leiðtogaráðsins færðist Ísland úr umsóknarferli yfir í viðræðuferli,“ segir á vefsíðu utanríkisráðuneytisins.

Ríkisstjórnin batt enda á viðræðuferlið fyrir ári. Nú er tímabært að binda enda á umsóknarferlið. Það færi vel á að gera það fjórum árum eftir að viðræðuferlið hófst.