11.6.2014 18:40

Miðvikudagur 11. 06. 14

Í dag var skýrt frá því að Tómas H. Heiðar hefði verið kjörinn dómari við Alþjóðlega hafréttardóminn á fundi aðildarríkja hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna í New York. Hann hlaut 124 atkvæði en mótframbjóðandi hans frá Austurríki hlaut 30.

Hafréttardómurinn hefur aðsetur í Hamborg og er skipaður 21 dómara, þar af þremur frá Vesturlöndum. Tómas tekur við dómaraembættinu 1. október en hann var kjörinn til níu ára. Tómas H. Heiðar hefur gegnt starfi þjóðréttarfræðings í utanríkisráðuneytinu frá árinu 1996. Hann er jafnframt forstöðumaður Hafréttarstofnunar Íslands.

Þetta er glæsilegur árangur í kosningabaráttu sem vafalaust hefur verið hörð.  Það spillti greinilega ekki fyrir frambjóðanda Íslands að landið stæði utan við Evrópusambandið. Kannski hefur það styrkt stöðuna á þessum vettvangi að vera ekki innan sambandsins og geta talað sjálfstæðri röddu. Raunar vekur nokkra undrun að landlukt ríki á borð við Austurríki sækist eftir að eignast fulltrúa í hafréttardómi.

Nýtt ríki er að verða til í norðurhluta Íraks og hluta af Sýrlandi. Þar eru súnnítar á ferð og bera öll merki þess að heyja stríðið af islömskum trúarhita. Í liði þeirra hafa verið menn frá Vesturlöndum sem margir óttast að snúi til heimalanda sinna og beiti þar ofbeldi í trúarofsa sínum. Árás á óbreytta borgara skammt frá bænahúsi gyðinga í Brussel er rakin til slíks vígamanns.