25.5.2014 22:50

Sunnudagur 25. 05. 14

Fréttir íslenskra fjölmiðla á úrslitum ESB-þingkosninganna og þeim straumum sem þær boða í stjórnmálum einkennast af því að þeir taka einkum mið af þeim miðlum sem birta fréttir á ensku.

Enginn vafi er á áhrif úrslitanna í Frakklandi verða veruleg innan ESB. Á Evrópuvaktinni má lesa stutta skýringu á úrslitunum og þar er meðal annars vitnað til þess að Manuel Valls, nýskipaður forsætisráðherra Frakka, sá ástæðu til að ávarpa þjóðina þegar ljóst var að stjórnarflokkurinn, Sósíalistaflokkurinn, hafði aðeins fengið tæp 15% atkvæða og allir vinstriflokkarnir í Frakklandi um 33%.

Fyrir kosningarnar reyndi Nicolas Sarkozy, fyrrv. Frakklandsforseti, að hressa upp á fylgi flokks síns með blaðagrein um nauðsyn þess að gjörbreyta skipan ESB. Með nánara samstarfi Frakka og Þjóðverja auk þess sem Schengen-samstarfinu yrði breytt í því skyni að skapa sameiginlega stefnu allra þjóða í málefnum innflytjenda og hælisleitenda til að hefta komu þeirra inn á Schengen-svæðið.

Mið-hægrimenn í EPP-flokknum (European People's Party) mynda stærsta þingflokkinn á hinu nýkjörna þingi og gera kröfu til formennsku í framkvæmdastjórn ESB.

Í einhverjum íslenskum fjölmiðlum er EPP-þingflokkurinn kenndur við kristilega demókrata. Það er of þröng skýring. Franskir flokkar eru ekki kristilegir enda hafa verið dregin skýr skil á milli trúmála og stjórnmála í Frakklandi. Þá eru moderatarnir, hægrimenn í Svíþjóð og Finnlandi, ekki heldur kristilegir flokkar. Vilji menn íslenka heiti þessa Evrópuflokks er það Evrópski flokkur fólksins sem mætti skammstafa EFF.