18.5.2014 22:10

Sunnudagur 18. 05. 14

Í dag var kosningaskrifstofa D-lista sjálfstæðismanna og annarra lýðræðissinna í Rangárþingi eystra opnuð í blíðskaparveðri á Hvolsvelli. Fjölmenni kom og hlýddi á ávörp Kristínar Þórðardóttur, efsta manns á listanum, og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Auk þess sungu ungar stúlkur nokkur lög við góðar undirtektir. Tæpar tvær vikur eru til stefnu fram að kosningum og verða þær skipulega og vel nýttar.

Þegar Rut var litið út á tún í Fljótshlíðinni í morgun sá hún hvíta tófu þjóta niður á það ofan úr hlíðardragi. Það var eins og fugl færi hratt í lágflugi um skurði í túninu og virtist tófan vita nákvæmlega hvar hún ætti að leita að æti í sefinu. Við töldum að sex gæsahreiður væru í landinu en tókum nú eftir að gæsirnar eru á bak og burt. Lágfóta var örugglega ekki þarna á ferð í fyrsta sinn. Raunar sá ég í gær egg á undarlegum stað á hlaðinu hjá mér. Hefur hún kannski glatað því úr skoltinum í fyrri ránsferð. Byssulaus hafði ég samband við nágranna sem komu vopnaðir á vettvang en sú hvíta lét ekki ná sér – ekki í þetta sinn.

Eftir þetta atvik í dag hef ég fengið fréttir af tófu víðar í Fljótshlíðinni en í þau ár sem við höfum lagt leið okkar þangað hef ég ekki áður orðið var við þetta dýr sem talið er hafa verið lengst allra hér á landi.

Oft þegar ég ek um götur Reykjavíkur ýta aðrar útvarpsstöðvar, einkum Útvarp saga, rás 1 til hliðar. Bendir þetta til að styrkur á útsendingu rásar 1 hjá ríkisútvarpinu sé ekki nægur. Þetta gerist til dæmis aldrei þegar ég hlusta á BBC World Service á 94,3.

Rás 1 helst að jafnaði inni þegar ekið er austur í sveitir. Stundum er eins og tíðni útsendinga falli ekki alveg saman og setning er endurtekin þegar útsendingin færist sjálfkrafa af einni tíðni á aðra. Í dag ruddi hins vegar önnur stöð rás 1 til hliðar þegar ég nálgaðist Selfoss að austan. Skyldi ekki vera unnt að koma í veg fyrir þetta? Eða gefa hlustendum ráð til bregðast við þessum ófögnuði? Þetta er tvímælalaust meinlegur galli á þjónustu ríkisútvarpsins.