13.5.2014 21:00

Þriðjudagur 13. 05. 14

Á ruv.is segir í dag:

„Uppnám varð á þingfundi síðdegis þegar Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar sakaði stjórnarandstöðuna um málþóf í umræðu um frumvarp ríkisstjórnarinnar um séreignarsparnað.

Önnur umræða um málið stóð til miðnættis í gær og var framhaldið eftir hádegi í dag. Í andsvari við Árna Pál Árnason, formann Samfylkingarinnar, fullyrti Vigdís að málþóf væri stundað. „Að hafna því hér nú í dag að það sé málþóf er barnaskapur, það er barnalegt í meira lagi,“ sagði Vigdís. „Þetta þurfum við að kljást við að flokkarnir sem stýrðu síðustu ríkisstjórn geta ekki með nokkru móti komið að því að vinna með okkur að því að heimilin í landinu fái skuldaniðurfellingu.“

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði Vigdísi sýna þöggunartilburði. „Mér er þetta algjörlega misboðið, að hér er verið að beita þöggunartilburðum gagnvart Árna Páli með því að saka hann um málþóf þegar hann er í ósköp eðlilegri málefnalegri umræðu um risavaxið mál.“ 

Árni Páll sagðist vonast til að það standist sem um hafi verið samið að lykilmál stjórnarflokkanna verði afgreidd. „Meðal annars þetta mál sem við erum að ræða núna, veiðigjaldafrumvarpið. Til viðbótar sumargjöf ríkisstjórnarinnar til stórútgerðarinnar stendur nú til að gefa vorgjöf í frekari veiðigjaldalækkunum.  

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að í því samkomulagi sem tekist hefði fyrir helgi hefði falist að þessi stóru mál ríkisstórnarinnar, séreignarsparnaður og skuldaniðurfærsla,  yrðu rædd og því væri ekki um málþóf að ræða.“

Þetta er í raun stórundarleg frétt og ber allt annað yfirbragð en þegar fréttastofa ríkisútvarpsins flutti hverja kvörtunarfréttina eftir aðra í tíð stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur um að þáverandi stjórnarandstaða stundaði málþóf. Nú hefur verið samið um lyktir þingmála. Jóhanna umturnaðist jafnan þegar um slíkt var rætt við hana og stjórnmálasamband hennar og Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur þingforseta slitnaði vegna ofríkis Jóhönnu.

Nú má þingmaður ekki nefna orðið „málþóf“ án þess að formaður þingflokks sjálfstæðismanna beri blak af stjórnarandstöðunni.