30.4.2014 23:15

Miðvikudagur 30. 04. 14

Fór í hádegi í Listaháskóla Íslands við Þverholt og hlustaði á Godd (Guðmund Oddsson) segja frá lífi sínu og lífsstarfi frá 1974 til 2004 fyrir þéttsettnum sal áheyrenda og margir fengu ekki sæti. Goddur er góður sögumaður auk þess sem hann sýndi mikið af myndum máli sínu og listsköpun til skýringar. Hann komst yfir mikið efni klukkustundar fyrirlestri sínum.

Tveir þættir mínir á ÍNN í apríl eru nú loks komnir á netið.

Hinn fyrri er frá 9. apríl þegar ég ræddi við Steingrím Erlingsson útgerðarmann um skipið sem er í smíðum fyrir hann og er sérhannað til þjónustu við olíuvinnslu auk þess sem hann hefur leigt það til sýslumannsins á Svalbarða. Hér má sjá viðtalið við Steingrím. 

Hinn síðari er frá 23. apríl þegar ég ræddi við Jóhann Sigurðsson útgefanda um hin miklu þýðingarverkefni sem hann hefur leitt til lykt á Íslendingasögunum, fyrst á ensku árið 2000 og nú á dönsku, norsku og sænsku. Hér má sjá viðtalið við Jóhann. 

Steingrímur og Jóhann eiga sameiginlegt að hafa tekið sér fyrir hendur verkefni sem virðast óframkvæmanleg en þeim tekst að breyta í veruleika. Áræði og þrautseigja af því tagi sem þeir hafa sýnt er öllum gott fordæmi.

Erindi Godds í dag sannfærði mig um að hann býr yfir sama hugrekki og þolgæði og þessir tveir viðmælendur mínir.