19.4.2014 21:40

Laugardagur 19. 04. 14

Einkennilegt er að kynna myndina Avatar í sjónvarpinu í kvöld á þann veg að hún sé tekjuhæsta mynd kvikmyndasögunnar. Hvað segir það okkur um gæði hennar? Myndin var kynnt á annan hátt til sögunnar í upphafi, meðal annars fyrir ótrúlegar tæknibrellur. Það vekur ekki sérstakan áhuga á að sjá myndina í sjónvarpi að hún hafi skilað framleiðendum sínum mikið í aðra hönd.

Í sjónvarpsstöðinni N4 var í kvöld sýnd heimildarmynd um Geirmund Valtýsson sem hefur spilað og sungið sig inn í hjörtu þjóðarinnar fyrir utan að vera geysivinsæll fjármálastjóri Kaupfélags Skagfirðinga eins og fram kom í myndinni. Þar lýstu bændur hve mikinn skilning hann hefði á högum þeirra enda litu þeir á hann sem einn úr sínum hópi og voru sýndar myndir af Geirmundi við bústörf að Geirmundarstöðum í Sæmundarhlíð.

Þetta var vel gerður þáttur og minnti mig á daga mína að Reynistað í Skagafirði en stutt er á milli bæjanna og minnist ég foreldra Geirmundar með virðingu frá árum mínum á heimaslóðum Geirmundar en hann steig fyrstu skref sín á tónlistarbrautinni í Melsgili, félagsheimilinu í Staðarhreppi.

Á eftir þættinum um Geirmund kom einstakur Barnaby-þáttur í danska sjónvarpinu, 100. þátturinn í röðinni og gerist hann að hluta í Kaupmannahöfn til heiðurs Dönum en Barnaby-þættirnir eru langvinsælustu þættir sem sýndir eru í DR1. Þarna voru ýmsir þekktir danskir leikarar í aukahlutverkum.

David Cameron, forsætisráðherra Breta, fann nýlega að því að BBC stæðist dönskum sjónvarpsstöðvum ekki snúning við framleiðslu á góðu sjónvarpsefni. BBC er ekki framleiðandi þáttanna um Barnaby.