16.4.2014 20:10

Miðvikudagur 16. 04. 14

Um nokkurt árabil kallaði Jónas Kristjánsson, fyrrverandi ritstjóri, forystumenn Sjálfstæðisflokksins „fasista“. Nú kallar hann þá innan Sjálfstæðisflokksins sem standa gegn aðild Íslands að ESB „Rússadindla“. Þessu nýjasta framlagi Jónasar til umræðna í netheimum er ætlað að gleðja og þar með minnka óánægju minnihlutans innan Sjálfstæðisflokksins sem telur sjónarmiðum sínum helst til framdráttar að hóta klofningi flokksins. Að uppnefna þá sem maður er ósammála er ekki til marks um sterka málefnalega stöðu.

Þessi framganga Jónasar sýnir að fokið er í flest skjól fyrir ESB-aðildarsinna. Þeir bundu vonir við að skýrsla Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands mundi styrkja málefnalega stöðu þeirra. Hún er hins vegar að mestu rituð í viðtengingarhætti til að lýsa einhverju sem kynni að gerast að mati ónefndra heimildarmanna í Brussel yrði aðildarviðræðum Íslendinga fram haldið.

Vandinn er bara sá að þessir sömu heimildarmenn stöðvuðu viðræðurnar með því að halda rýniskýrslunni um sjávarútvegsmál hjá sér. Að skýra þá ákvörðun með vísan til makríldeilunnar er dæmigerð eftirá-skýring – á viðræðutímanum var  hvað eftir annað áréttað að engin tengsl væru á milli viðræðnanna og makríldeilunnar.

ESB-menn vilja að Íslendingar slái af kröfum í sjávarútvegsmálum áður en rýniskýrslunni er skilað. Þetta kjarnaatriði forðast Jónas Kristjánsson og félagar að ræða. Þeir velja þess í stað þann kost að uppnefna þá sem þeir eru ósammála.