29.3.2014 22:10

Laugardagur 29. 03. 14

 

 

Kvikmyndin Nói vekur misjafnar tilfinningar. Í Morgunblaðinu fær hún tvær stjörnur en fimm í Fréttablaðinu og fjórar í The Daily Telegraph í London. Þar segir að myndin sem Darren Aronofsky leikstýrir og þar sem Russell Crowe leikur Nóa „veki undrun og minni á kraftaverk“. Hún sé gerð af skarpskyggni og metnaði og boðskapur hennar sé meiri en felist í  beinni endursögn af frásögninni í Biblíunni.

Í hvert sinn sem ég minnist á Ingimar Karl Helgason sem ritstýrir Reykjavík vikublaði telur hann mig vilja svipta börn sín fyrirvinnu. Ég eyðilagði meira að segja fyrir honum barnaafmæli með því að gagnrýna efnistökin í þessu einkennilega blaði sem gefið er út af Ámunda Ámundasyni með stuðningi frá auglýsendum.

Ingimar Karl er ekki í aðdáandahópi Óðins Jónssonar, fráfarandi fréttastjóra ríkisútvarpsins. Hann gagnrýnir, eins og ég, að fréttamenn ríkisútvarpsins skuli hafa ályktað um að ekki hefði átt að reka Óðin eins og aðra í framkvæmdastjórn ríkisútvarpsins.  Bendir margt til að um persónulega óvild sé að ræða. Í pistli á netinu í dag víkur Ingimar Karl að mér og talar um: „botnlaus áróðursskrif Björns Bjarnasonar fyrrverandi ráðherra og alþingismanns, sem uppnefnir fréttastofuna ESB-RÚV og einstaka starfsmenn, enda þótt staðreyndir gefi ekkert tilefni til slíkra uppnefna“.  

Mönnum er frjálst að fjargviðrast yfir því sem Ingimar Karl kallar uppnefni en er þó ekki annað en einkunn sem ég hef ríkisútvarpinu þegar tilefni er til þess. Að ég „uppnefni“ starfsmenn ríkisútvarpsins er rangt. Ég gef alltaf ástæðu fyrir gagnrýni minni á fréttastofuna. Menn geta verið ósammála þeim dæmum sem ég nefni en að staðreyndir skorti er rangt hjá Ingimar Karli.

Ég ítreka undrun mína yfir þeirri breytingu sem orðið hefur á Reykjavík vikublaði undir ritstjórn Ingimars Karls og skil ekki hvernig nokkrum dettur í hug að efnistökin höfði til hins almenna lesanda í Reykjavík.