14.2.2014 23:55

Föstudagur 14. 02. 14

Ók norður að Þingeyrum í A-Húnavatnssýslu í björtu og fögru veðri. Um kvöldið voru fjöll og ísilögð vötn böðuð tunglsljósi.

Einkennilegt er að sjá vinstrisinnaða álitsgjafa lýsa áhyggjum af breytingum á lögum um Seðlabanka Íslands í því skyni að fá nýja yfirstjórn hans. Fordæmið sem Jóhanna og Steingrímur J. gáfu í því efni verður aldrei toppað. Varla hefur núverandi stjórn erlendan mann í felum til að taka við af Má Guðmundssyni?

Steingrímur J. þakkar sér að hafa fundið Norðmanninn í seðlabankastjórastólinn með aðstoð Kristinar Halvorsen, þáv. fjármálaráðherra Noregs, sem kom hingað til lands senmma árs 2009 og fagnaði 10 ára afmæli systurflokksins, VG. Þá var látið eins og VG og SV í Noregi ættu alla framtíðina fyrir sér. Annað hefur komið á daginn. Það á einnig við um systurflokkinn í Danmörku, SF, hann er sem flakandi sár eftir að hafa átt aðild að ríkisstjórn í nokkra mánuði.

Í dag rann út fresturinn sem lögfræðingur Reynis Traustasonar gaf mér. Nú er að bíða næstu skrefa.