25.1.2014 22:40

Laugardagur 25. 01. 14

Á SVT2 í kvöld voru sýndir tónleikar frá 2012 í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu í Luzern í Sviss þar sem Claudio Abbado stjórnaði hljómsveit og kór sem fluttu sálumessuna eftir Mozart. Dagskráin var flutt í tilefni af því að Abbado er nýlátinn. Hún sýndi hvernig sjónvarpsstjórnendur tengja dagskrá sína samtímaviðburðum og færa þá til áhorfendanna. Þetta var gert á glæsilegan hátt á besta tíma í sænsku sjónvarpsstöðinni.

Salurinn í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu í Luzern er hannaður af Arctec, sömu hljómburðar-meisturum og hönnuðu salina í Hörpu. Í myndinni í SVT2 sást vel hve Eldborg í Hörpu og salurinn í Luzern eru líkir. Mestan mun er að sjá á litnum því að í Luzern er salurinn hvítur og kuldalegri en Eldborg.

Hér hefur stundum verið minnst á skrif Stefáns Ólafssonar prófessors. Hann sneri við blaðinu þegar dró að þingkosningum 2013, sagði skilið við Samfylkinguna í skrifum sínum og hallaði sér að Framsóknarflokknum. Að kosningum loknum hélt hann í eitthvað af bitlingum sem hann hafði fengið hjá vinstri stjórninni. Í dag segir Stefán frá því á vefsíðu sinni að hann hafi hlustað á Víking Heiðar Ólafsson leika einleik í píanókonsert Brahms og hrifist. Á leiðinni úr Eldborg sagði „virðulegur Sjálfstæðismaður“ við Stefán „að nú væri gott að eiga svona hús til að hýsa slíka snilli. Ég var sammála því,“ segir Stefán en bætir síðar við:

„Menningarsnauðir frjálshyggjumenn í Sjálfstæðisflokknum vildu hins vegar ekki klára bygginguna. Þeirra hugmynd var sú, að nota Hörpu sem hús fyrir skipaafgreiðslu og lager fyrir heildsala! Aðrir vildu að hún stæði ókláruð í áratugi sem minnismerki um heimsku og óhóf frjálshyggjutímans.“

Stefán þakkar síðan alfarið vinstri stjórninni fyrir að Harpa reis. Það er argasta sögufölsun.

Í desember 2008 sátu sjálfstæðismenn í stólum forsætisráðherra, fjármálaráðherra og menntamálaráðherra. Hefðu þessir ráðherrar sett Hörpu til hliðar við fjárlagagerð fyrir árið 2009 hefðu framkvæmdir stöðvast. Þeir gerðu það ekki. Hanna Birna Kristjánsdóttir var borgarstjóri og stóð með Hörpu í lok árs 2008 og síðan á árinu 2009 eftir að Katrín Jakobsdóttir varð menntamálaráðherra.

Hvers vegna er prófessornum svo mikið kappsmál að fara með ósannindi um sjálfstæðismenn?