16.1.2014 21:25

Fimmtudagur 16. 01. 14

Í gær vakti ég máls á því í tilefni af samtali mínu við Vigdísi Hauksdóttur, þingmann Framsóknarflokksins, á ÍNN  að Hannes Pétursson skáld hefði kallað hana „rósfingraða morgungyðju“ í grein í Fréttablaðinu.

Mér lék hugur á að átta mig betur á þessari kenningu enda hljómaði hún ekki framandi. Nú má leita að öllu á netinu með aðstoð Google. Hann segir að Jón Thoroddsen tali um „rósfingraða morgungyðju“ í Pilti og stúlku eins og staðfest er í Orðabók háskólans.

Svo virðist sem í fyrsta sinn sé það Sveinbjörn Egilsson sem noti kenninguna í þýðingu sinni á Odysseifskviðu eftir Hómer á  fyrri hluti 19. aldar. Odysseifur og félagar hans eru fangar í helli risans Pólýfemusar.

Odysseifur blindar risann sem settist við hellismunnann og hugðist grípa Odysseif og félaga hans ef þeir reyndu að komast út úr hellinu en í honum voru einnig „þrifalegir sauðir, ullarmiklir, fríðir og föngulegir, þeir voru mórauðir; eg tók þrjá af þeim, og batt þá saman í kyrrþey með harðsnúnum víðitágum, sem risinn lá á, tröll það, er af engri sanngirni vissi.

Miðsauðurinn bar einn mann, en hinir tveir gengu sínum megin hvorr, og geymdu félaga minna; báru svo þrír sauðir hvern mann. Nú var þar einn hrútur, sem var langfélegastur af öllum sauðunum; eg greip ofan í bakið á þessum hrút, vatt mig undir kvið hans, hélt mér fast með báðum höndum í ullarreyfið, og hékk þar svo í bugðu þolinmóður. Þannig biðum vér, þó oss væri óhægt, þar til lýsa tók. En er hin árrisula, rósfingraða Morgungyðja kom í ljós, ruddust sauðirnir út í hagann.“

Hannes Pétursson líkir Vigdísi þannig við Morgungyðjuna sem á grísku nefndist Eos en Aurora á latínu. Ekki leiðum að líkjast.