15.1.2014 21:20

Miðvikudagur 15. 01. 14

Í kvöld ræði ég við Vigdísi Hauksdóttur, þingmann Framsóknarflokksins, í þætti mínum á ÍNN, hér má sjá kynningu

Við töluðum um ríkisfjármálin en Vigdís er formaður fjárlaganefndar alþingis og sat í hagræðingarnefnd ríkisstjórnarinnar. Hún segir að fjárlög 2013 hafi verið dæmigerð kosningafjárlög og telur að halli ársins 2013 verði 20 til 25 milljarðar króna. Hann hefði orðið miklu meiri ef ekki hefðu orðið stjórnarskipti og ábyrgir flokkar komið að stjórn ríkisfjármála. Nú verði að sjá til þess að markmiði fjárlaga 2014 verði náð með tæplega milljarðs afgangi.

Þá ræddum við Vigdís einnig um ESB-aðildarmálið en hún er formaður Heimssýnar. Hún vill að lögð verði fram tillaga um að draga ESB-aðildarumsóknina til baka þegar skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands hefur verið kynnt en samkvæmt samningi stofnunarinnar og utanríkisráðuneytisins átti það að vera í dag, 15. janúar. Vigdís taldi að skýrslan birtist eftir fáeina daga.

Næst verður samtal okkar sýnt á ÍNN klukkan 22.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun

Vigdís er skeleggur málsvari. Hannes Pétursson skáld nefnir Vigdísi „rósfingraða morgungyðju Framsóknar, Móamanna og Heimssýnarfólksins“ í grein í Fréttablaðinu þriðjudaginn 14. janúar.