8.1.2014 22:10

Miðvikudagur 08. 01. 14

Fréttir af ferðamönnum hér á landi yfir vetrarmánuðina eru miklar. Á mbl.is í dag má lesa frásögn um að þeir hafi hópast saman við Hallgrímskirkju um áramótin, þá segir:

„Hinsvegar var ekkert [við kirkjuna] sem gaf skýrt til kynna hvenær miðnætti gengi í garð. Engin niðurtalning eða ljósaskilti sem sýndi töluna 2014. Vísarnir á turnklukkunni eru ónákvæmir og bjöllurnar slógu ekki, og heyra mátti að úr viðstaddra voru ekki samstillt því nokkur skekkja var í því hvenær nýárskveðjurnar byrjuðu að fljúga milli manna.“

Blaðamaðurinn taldi að ramma þyrfti áramótin betur inn fyrir við Hallgrímskirkju. Hann ræddi við Jóhannes Pálmason, formann sóknarnefndar Hallgrímskirkju, sem sagði fullan vilja til að koma klukkuverkinu í lag í turninum en það væri hinsvegar vandkvæðum bundið, klukknaspilið væri frá miðjum 8. áratugnum og erfið veðurskilyrði hefðu haft sín áhrif á allan búnað, jafnt klukkur sem rafmótora, auk þess skorti fé til framkvæmda.

Þá ræddi blaðamaðurinn einnig við Einar Bárðarson, forstöðumann Höfuðborgarstofu, sem sagði sannarlega „orðið tilefni til að skoða hvort hægt sé gera meiri viðburð úr gamlárskvöldi við Hallgrímskirkju“.

Einar hafði ekki frekari orð um hvað gera skyldi um áramót við Hallgrímskirkju. Það hefði mátt velta upp spurningunni hvort Reykjavíkurborg undir forystu Jóns Gnarrs teldi við hæfi að fólk kæmi saman við kirkju um áramót. Sé svo mætti slá margar flugur með því að borgaryfirvöld greiddu kostnað af viðgerð á klukkuverkinu – stærsta klukkan heitir Hallgrímur í höfuðið á Hallgrími Péturssyni en í ár eru 400 ár liðin frá fæðingu hans.

BBC sagði að margar skrýtnar frásagnir bærust frá Bandaríkjunum vegna kuldanna þar. Ein hin skondnasta væri að í dýragörðum hefðu menn orðið að gera ráðstafanir til að bjarga ísbjörnum.