5.1.2014 22:20

Sunnudagur 05. 01. 14

Benedikt Stefánsson var ráðinn aðstoðarmaður Gylfa Magnússonar viðskiptaráðherra og hóf störf 4. ágúst 2009 en Gylfi hvarf úr ráðherraembætti 2. september 2010. Benedikt var því gjörkunnugur störfum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og hann sendi henni drög að frumvarpi til laga um aukna hlutdeild endurnýjanlegrar orku í samgöngum. „Lögin hafa verið gagnrýnd fyrir að ganga of langt og leggja aukinn kostnað á notendur,“ sagði í Viðskiptablaðinu 12. desember 2013 og að Benedikt Stefánsson væri framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar Carbon Recycling, fyrirtækis sem ætti mikið undir vegna málsins og hefði meðal annars farið í hlutafjáraukningu eftir að lögin voru samþykkt.

Á vefsíðunni Andríki segir í dag:

„Sem kunnugt er samþykkti Alþingi síðasta vor frumvarp Steingríms J. Sigfússonar, skrifað af Benedikt Stefánssyni starfsmanni Carbon Recycling International, um að leiða þessa tilskipun [ESB um að 10% eldsneytis í samgöngum verði af svonefndum endurnýjanlegum uppruna árið 2020] með hraði í lög hér á landi. Lögin hafa þær afleiðingar að þegar er hafinn innflutningur á dýrri jurtaolíu sem blanda á í Dieselolíu. Í framhaldinu má jafnvel búast við því að korn-etanól til íblöndunar í bensín verði flutt inn. Innkaupskostnaður Íslendinga á eldsneyti mun hækka um mörg hundruð milljónir króna í erlendum gjaldeyri á ári vegna þessarar löggjafar.“

Þá er einnig bent á að metanólverksmiðja Carbon Recycling International sé í kjördæmi Ragnheiðar Elínar Árnadóttur en vonast hafi verið til „að lögin, sem fyrirtækið kokkaði ofan í grunlausa þingmenn, myndu færa fyrirtækinu mörg hundruð milljóna króna viðskipti á ári“.

Þetta er dæmalaus lýsing á framgangi máls sem mun auka álögur á alla landsmenn með hækkandi eldsneyti fyrir utan að þjóna ekki þeim tilgangi í þágu umhverfisverndar sem að var stefnt. Þá eru áhrif þessarar íblöndunar að verð á korni hækkar um leið og framboð á því til manneldis minnkar.

Hvers vegna í ósköpunum skyldi ekki markvisst unnið að því að losa Íslendinga undan þessari löggjöf?