29.12.2013 23:10

Sunnudagur 29. 12. 13

Fjórðu lotunni af Downton Abbey lauk í sjónvarpinu í kvöld. Fyrsta lotan var frumsýnd í ITV-sjónvarpsstöðinni í Bretlandi og á Írlandi 26. september 2010 og ráðgert er að fimmta lotan verði sýnd árið 2014.

Þáttaröðin er eitt vinsælasta sjónvarpsefni sem komið hefur frá Bretlandi. Í Bandaríkjunum eru þættirnir sýndir undir merkjum Masterpiece Classic  á PBS-stöðinni og segir The New York Times að þeir séu líklega vinsælasta efnið sem sýnt hafi verið undir þessu merki í 40 ára sögu Masterpiece Classic.

Hér skal engum getum leitt að því hvað veldur þessum miklu vinsældum. Mörgum spurningum er enn ósvarað þegar fjórðu lotunni lýkur. Ef til vill ræður fortíðarþráin miklu um vinsældir þáttanna og glæsileikinn sem þeir sýna.  

Að baki vinsældunum býr ekki aðeins efni þáttanna heldur einnig umgjörðin. Hún hefur meðal annars leitt til þess að efnt er til sýninga víða um lönd á kjólunum sem konurnar klæðast. Þá eru vefsíður helgaðar matargerðinni í þáttunum og þannig má áfram rekja það sem þeir hafa getið af sér.