19.12.2013 22:15

Fimmtudaginn 19. 12. 13

Fjórða hefti 9. árgangs tímaritsins Þjóðmála undir ritstjórn Jakobs F. Ásgeirssonar kom út í dag. Efni þess er fjölbreytt að vanda. Ég hef frá upphafi skrifað dálk í Þjóðmál sem ber fyrirsögnina Af vettvangi stjórnmálanna og birtist hann í þessu hefti eins og öðrum að auki skrifa ég í þetta hefti grein um þrjár nýjar bækur sem snúast um þrjá fyrrverandi ráðherra: Jóhönnu Sigurðardóttur, Steingrím J. Sigfússon og Össur Skarphéðinsson.

Þetta er ekki hefðbundin bókagagnrýni heldur ber ég saman hvernig lýst er stjórnarmynduninni frá 1. febrúar 2009 þegar söguhetjurnar þrjár settust saman í ríkisstjórn. Frásagnirnar sanna að ólíkum augum líta menn silfrið.

Össur skrifar bók sína Ár drekans sem dagbók sína frá árinu 2012. Guðmundur Magnússon blaðamaður sagði í Morgunblaðinu hinn 11. desember:

„Spurningar hafa á hinn bóginn vaknað um það hvers eðlis þessi skrif Össurar eru sem heimildir. Hvort þau séu réttnefndar dagbækur. Eru þær skráðar jafnóðum eins og látið er í veðri vaka? Eða er formið aðeins notað fyrir frásagnir sem eru að meira eða minna leyti skrifaðar í aðdraganda útgáfunnar? Ég veit ekki svarið við þessu, en mér finnst athyglisvert að lesa í þessu sambandi athugasemdir sem tveir flokksbræður Össurar hafa birt á netinu. Annar þeirra, Kjartan Valgarðsson, bendir á að í færslu 19. maí 2012 sé Össur í flugvél á leið á leiðtogafund Nato í Bandaríkjunum. Þeir taka tal saman, Össur og utanríkisráðherra Lúxemborgar sem er um borð. „Við gerum báðir ráð fyrir því að í Frakklandi vinni François Hollande góðan sigur,“ skrifar Össur. Kjartan bætir við: „François Hollande var kjörinn forseti 6. maí. Það er útilokað að Össur hafi skrifað þetta í dagbók sína þennan dag.“

Önnur athugasemd lýtur að fundi 6. desember 2012. Þar segir Össur frá fundaferð Árna Páls Árnasonar þegar hann var að undirbúa formannsframboð sitt í Samfylkingunni. Össur segir að á fund í Árborg hafi komið „tveir riddarar að sunnan, Mörður Árnason og Kjartan Valgarðsson“. Kjartan: „Ég kom ekki á neinn af fundum Árna Páls.“ Mörður staðfestir síðan að hann hafi ekki komið á neinn slíkan fund.

Ef „dagbókarfærslurnar“ í Ári drekans eru fleiri af þessu tagi, gagnstætt því sem auglýst er, missir bókin auðvitað gildi sitt sem trúverðug söguleg frumheimild. Þetta þarf að upplýsa. Bókin hefur aftur á móti gildi sem vitnisburður um stjórnmálamanninn Össur Skarphéðinsson og sýn hans á stjórnmálin.“