2.12.2013 22:30

Mánudagur 02. 12. 13

Björt framtíð mælist með gott fylgi (13,5%) og tekur fylgi frá öðrum stjórnarandstöðuflokkum. Spurning vaknar um hvað býr að baki svörunum. Varla geta þau verið reist á vitneskju fólks um stefnu flokksins. Guðmundur Steingrímsson, formaður flokksins, verður jafnan eins og stórt spurningamerki þegar að leitað er svara hjá honum við brennandi spurningum. Það er gert á mbl.is mánudaginn 2. desember vegna aðgerða í þágu skuldugra heimila sem ríkisstjórnin kynnti laugardaginn 30. nóvember.

„Mér finnst enn þá spurningum ósvarað. […]Við þurfum að spyrja ýmissa spurninga, eins og hvaða frumvörp þurfa að koma fram og hvenær þau þurfa að koma fram,“ svaraði Guðmundur Steingrímsson mbl.is „Þá vakna spurningar hvað við erum að fá fyrir peninginn [sem aflað verður til að létta skuldbyrði heimilanna]. Hvort þessum peningum sé vel varið eða hvort þeim geti verið betur varið í annað í þágu fólks. Í þágu uppbyggingar í fjársveltu samfélagi eftir langvarandi kreppu.“

Þessi stefna að hafa helst enga skoðun höfðar greinilega vel til hóps kjósenda sem stækkaði í síðasta mánuði miðað við könnun sem kynnt var í sjónvarpinu í kvöld. Að vísu var tekið fram að könnunin hefði verið gerð áður en ríkisstjórnin kynnti skuldabyrðastefnu sína. Mátti álykta að könnunin hefði þegar misst gildi sitt.