24.11.2013 22:20

Sunnudagur 24. 11. 13

Nýi þátturinn sem sýndur var í ríkissjónvarpinu í kvöld Orðbragð heppnaðist vel, hann má nálgasthér.  Það er tímabært að gera nútímalegan sjónvarpsþátt um íslenskt mál. Ritmálið verður æ mikilvægara vegna tölva og síma, að smíða brú á milli skammstafana nú og í fyrstu handritunum var vel til fundið. Þá spöruðu menn kálfskinn með því að stytta orðin – hvað spara þeir nú? Orðið app var tekið inn í málið en orðinu fésbók hafnað. Hvað orð á að nota yfir Facebook? Snjáldur?

Hannes Hólmsteinn Gissurarson lýsir ofstæki og hatri í sinn garð í þessari frásögn.  Ég gagnrýndi fyrir nokkru þegar Lára Hanna Einarsdóttir gerði tilraun til að afskræma nýjan sjónvarpsþátt Gísla Marteins Baldurssonar með eigin útgáfu á honum. Tilgangurinn virtist vera hinn sami og hjá þeim sem beita sér gagnvart ríkisútvarpinu til að Hannes Hólmsteinn sé bannfærður.