21.11.2013 23:40

Fimmtudagur 21. 11. 13

Varðberg efndi til fundar í hádeginu í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands þar sem Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra flutti ræðu um öryggismál. Henni mæltist vel og svaraði fyrirspurnum fundarmanna að loknu erindi sínu.

Í kvöld fór ég í Hannesarholt þar sem Sveinn Einarsson kynnti bók sína um Guðmund Kamban og sýnd var sjónvarpsmynd frá 1988 um Kamban eftir Víking Viðarsson. Var þetta fróðleg og skemmtileg kynning á Kamban.

Kristján Albertsson, vinur minn, kom fram í myndinni, blindur á Droplaugarstöðum, og lýsti kynnum sínum af Kamban. Rifjaðist upp fyrir mér hve oft hann minntist hans í samtölum okkar á sínum tíma.