20.11.2013 21:30

Miðvikudagur 20. 11. 13

Í dag ræddi ég við Vigdísi Grímsdóttur rithöfund í þætti mínum á ÍNN um nýju bókina hennar Dísu sögu. Viðtalið verður næst á dagskrá klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun. Það ætti engum að leiðast við að heyra Vigdísi segja frá bókinni sinni og störfum sem rithöfundur.

Það er forvitnilegt að fylgjast með viðbrögðunum í Noregi við fréttinni í Dagbladet í gær um að Bandaríkjamenn hefðu skráð 33 milljónir símtala Norðmanna á einum mánuði. Nokkrum klukkustundum eftir að fréttinn birtist var upplýst að leyniþjónusta norska hersins hefði safnað upplýsingunum í Afganistan vegna öryggisgæslu í þágu norskra hermanna þar. Ritstjóri Dagbladets viðurkenndi að blaðið hefði hlaupið á sig. Málið heldur áfram í dag eins oglesa má í þessari frétt á Evrópuvaktinni.

Ögmundur Jónasson gegndi embætti sem innanríkisáðherra. Hann er nú formaður stjórnarskrár- og eftirlitsnefndar alþingis og lét í Spegli ríkisútvarpsins eins og hann vissi ekki svörin við einhverjum spurningum sem nefndarmenn hefðu lagt fyrir ráðuneytisstjóra og þyrftu að leggja fyrir ríkislögreglustjóra. Hvers vegna þessar sviðsetningar og leikaraskapur?

Ekki tók betra við í Speglinum þegar Arnar Páll Hauksson ræddi við Kristin Hrafnsson, upplýsingafulltrúa Wikileaks. Kristinn fer gjarnan með hálfkveðnar vísur til að gera stofnanir tortryggilegar, að þessu sinni til dæmis greiningardeild ríkislögreglustjóra. Að líkja henni við leyniþjónustur annarra ríkja er alrangt eins og hver fréttamaður getur kynnt sér með því að lesa lög og reglur.

Það er dæmigert að í Speglinum er lögð áhersla á þá sem fiska í gruggugu vatni þegar öryggis- og lögreglumál eru annars vegar en ekki leitað til þeirra sem hafa þekkingu á málum. Ritstjóri Dagbladets í Noregi er í varnarstöðu fyrir sig og blað sitt vegna óvandaðra vinnubragða. Vandræði hans ættu að vera víti til að varast í heimi fjölmiðlamanna.