18.11.2013 22:20

Mánudagur 18. 11. 13

Nú hef ég lesið bækur Össurar Skarphéðinssonar og Steingríms J. Sigfússonar um störf þeirra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég ætla að skrifa um þær í næsta hefti Þjóðmála.

Allir vissu að vinstri-grænir áttu í illdeilum hver við annan allt kjörtímabilið. Átökin innan Samfylkingarinnar voru ekki minni. Steingrímur J. undrast hve vel samfylkingarfólki tókst að leyna þeim. Um þetta má ef til vill segja að meiri sársauki dregur athygli frá hinum minni, átökin innan VG skýldu átökunum innan Samfylkingarinnar.

Í frásögnum af bókunum hefur athygli verið beint að deilum ráðherra við forseta Íslands. Steingrímur J. leit þannig á 31. desember 2009 að hann mætti ekkert segja þegar Ólafur Ragnar neitaði að skrifa undir Icesave I lögin á ríkisráðsfundi. Síðar kynntust ráðherrarnir því að forsetinn taldi sig hafa fullt málfrelsi á ríkisráðsfundum og dóseraði yfir þeim.

Frá þessum einræðum er sagt í bók Össurar, hann kippti sér í raun ekki upp við þær vegna vináttu sinnar við Ólaf Ragnar. Hvorki Össuri né öðrum fyrrverandi flokksbræðrum Ólafs Ragnars tókst hins vegar að hindra hann í beita synjunarvaldinu tvisvar vegna Icesave.