17.11.2013 18:45

Sunnudagur 17. 11. 13

Niðurstaðan í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík er áfellisdómur yfir þeim sem farið hafa með forystu flokksins í borgarstjórn undanfarin misseri. Halldór Halldórsson hlaut 1. sæti vegna þekkingar sinnar á sveitarstjórnamálum og vegna þess að hann hefur staðið fjarri borgarstjórn Reykjavíkur. Vissulega hefði þátttakan í prófkjörinu mátt verða meiri en sé litið á hana sem hlutfall af kjósendum flokksins í Reykjavík um þessar mundir er ósanngjart að bera þátttökuna saman við fjöldann sem kaus í prófkjöri þegar flokkurinn var með 40% til 50% fylgi í höfuðborginni.

Halldór Halldórsson var gestur í þætti mínum á ÍNN eins og sjá má hér. Hann nálgast viðfangsefnið af þekkingu og heilbrigðri skynsemi eins og þegar hann segir að í umferðarmálum eigi að hafa að markmiði að flæði ökutækja sé sem jafnast og greiðast. Það segir sína sögu að jafnsjálfsögð yfirlýsing stangist á við stefnuna sem núverandi borgaryfirvöld fylgja. Þeir sem aka til dæmis um Borgartúnið átta sig á hvað felst í orðum Halldórs. Fróðlegt væri að vita hve háum fjárhæðum hefur verið úr borgarsjóði á þessu ári til að leggja stein í götu einkabílsins.

Halldórs bíður það verkefni að rífa Sjálfstæðisflokkinn upp úr hjólförunum og koma honum á skrið að nýju í Reykjavík. Til þess þarf hann öflugan og samhentan frambjóðendahóp að baki sér og flokkskerfi sem hefur gengið í endurnýjun lífdaga. Raunar sýnir vegur Besta flokksins að flokkskerfi er minna virði en að ná beinu og milliliðalausu sambandi við kjósendur. Að beina athygli að flokkskerfinu eftir prófkjör eins og þetta er líklega hreinn misskilningur, miklu nær er að snúa sér beint að því að vinna hug og hjörtu kjósenda með jákvæðum boðskap og skírskotun til heilbrigðrar skynsemi.

Að gefnu tilefni vil ég taka fram að mér heilsast eins vel og á verður kosið og hefur mér ekki orðið neitt meint af fallinu á föstudag. Öllum er hættulaust að stunda qi gong eins og ég hef gert reglulega í tæp 20 ár án þess að verða misdægurt vegna þess. Menn eiga hins vegar að gæta sín kenni þeir einhverra óeðlilegra óþæginda því að æfingarnar geta magnað þau. Um qi gong má fræðast í nýrri bók Gunnarsæfingarnar.