27.10.2013 22:55

Sunnudagur 27. 10. 13

Gengum að Hvíta húsinu en Pennsylvania Ave. er nú algjörlega lokað fyrir allri umferð, fórum því niður fyrir garð hússins á leið okkar í Smithsonian Instution þar sem við vorum allan daginn og lukum honum með því hlusta klukkan 18.00 á Rob Kapilow skýra Kreutzer-sónötu Beethovens og var hún leikin af Zoë Martin-Doike á fiðlu og Chelsea Wang á píanó. Kynningin og tónleikarnir voru i Baird-salnum í National Muesum of Natural History en þar tók ég árið 1999 þátt í forkynningu á víkingasýningunni miklu sem sett var upp í þessu húsi Smithsonian árið 2000.

Smithsonian sýningarsalirnar og það sem þeir geyma er engu líkt og stærðin á öllu svo mikil að með ólíkindum er. Þótt við værum þarna allan daginn fengum við aðeins nasajón af því sem í boði er.

Hvergi er krafist aðgangseyris og á sunnudegi voru foreldrar með börn á öllum aldri að kynna sér allt milli himins og jarðar og raunar meira en það, safnið sem hýsir allt er tengist geimferðum er hið vinsælasta á svæðinu auk náttúruminjasafnsins.