21.10.2013 22:30

Mánudagur 21. 10. 13

Helgi Helgason stjórnmálafræðingur ritar grein um Schengen-samstarfið í Morgunblaðið í dag og segir meðal annars: „Schengen líkt og EES er stjórnarskrárbrot. Þessi fullyrðing er ekki bara frá mér komin. Þetta er álit þáverandi forsætisráðherra þegar við gengum í Schengen og þetta er álit manna eins og Össurar Skarphéðinssonar.“ Áður en Íslendingar gerðurst aðilar að EES-samningnum og Schengen-samstarfinu voru lögfróðir menn fengnir til að meta hvort aðildin bryti í bága við stjórnarskrána og töldu þeir svo ekki vera enda hefði ekki komið til aðildarinnar ef svo hefði verið talið.

Þá segir Helgi:

„Við vitum að fyrir Schengen þreifst ekki mansal á Íslandi, skipulögð glæpastarfsemi var nánast ekki til, fáir fangar voru útlendir glæpamenn, fíkniefni voru tæpast framleidd í stórum stíl í landinu. Og nú er það nýjasta nýtt, erlendir útigangsmenn eru orðnir svo ágengir að íslenskir útigangsmenn fá ekki lengur pláss í gistiskýlum ætluðum þeim (DV. 28.8. 2013). Á maður að hlæja eða gráta?“

Þetta eru stór orð. Að kenna Schengen-samstarfinu um þetta ástand ber ekki vott um mikla þekkingu á eðli þess annars vegar og á EES-samstarfinu hins vegar. Réttur fólks til að dveljast hér á landi ræðst af EES-aðildinni en ekki Schengen-samstarfinu. Þeir sem Helgi amast við í grein sinni hafa rétt til að dveljast hér hvað sem líður Schengen-aðildinni.

Helgi ætti að kynna sér umræður á Bretlandi um komum fólks þangað frá ESB-ríkjum en Bretar hafa ekki gerst aðilar að Schengen.

Greini menn ekki vandann rétt komast þeir að rangri niðurstöðu. Að telja það Schengen-aðild að kenna að Reykjavíkurborg hefur undir stjórn Jóns Gnarrs minnkað þjónustu við útigangsmenn sýnir ógöngur Helga Helgasonar.