20.10.2013 22:41

Sunnudagur 20. 10. 13

Á ensku segja menn wake-up-call og á íslensku að menn vakni við vondan draum en ákveði að gera betur með sérstöku átaki. Þetta kemur í hugann þegar tölur um fylgi stjórnarflokkanna eru kynntar og Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Það verður spennandi að sjá hvernig forysta ríkisstjórnarinnar tekur á málum og hvað sjálfstæðismenn í Reykjavík gera.

Mörgum þykir furðulegt að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra skuli velja þennan tíma núna til að taka sér frí. Umræður um fjarveru hans hafa þó í raun verið litlar miðað við það sem orðið hefði í öðrum löndum gerðist eitthvað sambærilegt þar. Þegar rætt var um stjórnaferil Nicolas Sarkozys Frakklandsforseti hvíldi sá skuggi alltaf yfir honum að hafa farið í frí á snekkju auðkýfings á Miðjarðarhafi strax eftir að hafa náð kjöri. Var það talið meðal helstu skýringa á því að Sarkozy náði ekki endurkjöri árið 2012.

Til umræðu hefur verið að Halldór Halldórsson, fyrrverandi bæjarstjóri á Ísafirði, færi í prófkjör sjálfstæðismanna í Reykjavík. Hann segir í viðtali við mbl.is í dag:

„Nú er ég að reyna að átta mig betur á leikreglunum í prófkjörinu, en mér finnst þær ekki liggja alveg skýrar fyrir eins og er. Fulltrúaráðið samþykkti að skilyrði fyrir þátttöku í prófkjörinu væri að viðkomandi hefði greitt félagsgjöld, og miðstjórn hefur túlkað þær reglur á ákveðinn hátt. Í mínum huga er þetta þó frekar óljóst ennþá. Það væri óþægilegt að fara í prófkjörsbaráttu um ákveðið sæti þegar leikreglurnar eru ekki alveg skýrar í mínum huga.“

Þessi orð koma heim og saman við það sem áður hefur komið fram hér á síðunni. Þessi vandræðagangur forystumanna Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík lofar ekki góðu fyrir framhaldið.