19.10.2013 23:30

Laugardagur 19. 10.13

Í fréttum ríkisútvarpsins í dag var sagt að Einar K. Guðfinnsson, forseti alþingis, teldi ekki boðlegt að alþingi skipaði rannsóknarnefndir sem kostuðu mikla fjármuni, um óskýr verkefni. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins ætlaði að endurskoða lög um rannsóknarnefndir.

Fréttastofan sagði að skýrsla um Íbúðalánasjóð sem kom út í sumar hefði átt að kosta 70 milljónir en kostaði 250 milljónir. Þá væri skýrsla um sparisjóðina væntanleg. Einar K. Guðfinnsson forseti Alþingis segði að áður en gengið yrði lengra í öðrum rannsóknum þyrfti stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að komast að niðurstöðu um það hvernig slíkum málum skyldi háttað. Í sumum tilfellum gæti reynst óþarft að skipa nefndir, frekar væri hægt að leita til ríkisendurskoðunar eða umboðsmanns alþingis. Þingforseti sagði:

„Það er alveg ljóst að við verðum að læra af þessari reynslu. Þetta getur ekki gengið svona áfram, Við sjáum til dæmis með sparisjóðina og Íbúðalánasjóð að þau verkefni voru skilin eftir galopin að hálfu alþingis. Það sjá allir að það getur ekki gengið.“

Þessi frétt minnir á að alþingi hefur lokaeftirlit með opinberum eftirlitsmönnum og rannsakendum. Alþingi setur þeim einnig erindisbréf og ákveður fjárveitingarnar. Af orðum þingforseta má ráða að hann telur erindisbréfin hafa verið of óljós, veitt rannsakendum of rúmar heimildir auk þess sem við blasir að nefndum hefur verið afhent auð ávísun á skattgreiðendur. Farið hefur verið langt út fyrir þann fjárhagsramma sem settur var þeim sem höfðu það hlutverk að kanna meðferð annarra á opinberu fé.