16.10.2013 22:55

Miðvikudagur 16. 10. 13

Nú er mánuður þar til gengið verður til prófkjörs meðal sjálfstæðismanna í Reykjavík til að velja fulltrúa á listann vegna borgarstjórnarkosninganna vorið 2014. Mikið er í húfi vilji flokkurinn bjóða skýran kost gegn Besta flokknum og Samfylkingunni. Enn er hins vegar óljóst hvernig prófkjörinu verður háttað. Þegar ákveðið var að hafa almennt prófkjör en ekki svonefnt leiðtogaprófkjör eins og forystumenn í Verði, fulltrúaráði flokksins, lögðu þeir sem töpuðu atkvæðagreiðslunni til að kosningaréttur í prófkjörinu yrði þrengdur með því að binda hann við þá sem greitt hafa félagsgjöld. Þetta nýmæli var samþykkt að því er virðist án mikilla umræðna.

Meðal þeirra sem láta sig þetta prófkjör varða innan Sjálfstæðisflokksins er enn óljóst hvernig að því verður staðið, hvort það verður í raun „þröngt“ eða „opið“. Þeir sem vilja þrengja rétt Reykvíkinga til þátttöku í prófkjörinu tengjast þeim öflum sem hafa skapað sér aðstöðu í krafti hverfafélaga flokksins í borginni. Þykir mörgum sérkennilegt að þeir sem telja sig vera í bestum tengslum við grasrótina meðal borgarbúa skuli vilja reisa þröskuld þegar kemur að þátttöku í prófkjörinu.

Þess er að vænta að næstu vikur færist aukin spenna í þennan þátt kosningaundirbúnings sjálfstæðismanna. Skiptir flokkinn miklu hvernig að þessum þætti málsins verður staðið því að hann skiptir miklu til að auðvelda flokksmönnum að stilla saman strengina í baráttunni vorið 2014.