12.10.2013 23:10

Laugardagur 12. 10. 13

Fregnir frá hringborði norðurslóða í Hörpu, þar sem um 1.000 manns hafa setið í dag, herma að í ávörpum erlendra forystumanna hafi komið fram mikil aðdáun á dugnaði Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, við að kalla allan þennan hóp saman í því skyni að ræða norðurslóðamálefni.

Á vefsíðunni Alaska Dispatch er sagt frá hringborðinu, Arctice Circle, og jafnan tekið fram að útgefandi Alaska Dispatch, Alice Rogoff, sé frumkvöðull að þessu framtaki með Ólafi Ragnari. Alice Rogoff er gift David Mark Rubenstein, bandarískum fjármálamanni sem er best þekktur sem annar stofnenda The Carlyle Group, fjárfestingafyrirtækis. Á lista Forbes yfir auðugustu Bandaríkjamenn á árinu 2013 er nettóvirði Rubensteins talið vera 3 milljarðar dollara.

Alaska Dispatch kom til sögunnar sem fréttablogg árið 2008. Alice Rogoff, fyrrverandi fjármálastjóri vikuritsins U.S. News & World Report, keypti meirihluta bréfa í fyrirtækinu á bakvið vefsíðuna árið 2009 og flutti starfsemina í flugskýli á Merrill Field flugvellina við Anchorage þar sem Rogoff, fullnuma flugmaður, geymir einnig Cessna 206 fugvél sína. Eftir að Rogoff eignaðist vefsíðuna hefur fjölgað starfsliði við hana.

Í frétt Alaska Dispatch af ráðstefnunni var sagt að boð um þátttöku í hringborðinu hefði ekki vakið áhuga alríkisstjórnarinnar í Washington, hins vegar kæmi frammáfólk frá Alaska.

Það sannast enn við þennan atburð hve Ólafur Ragnar hefur mikla hæfileika til að vekja áhuga auðugs fólks á hugðarefnum sínum og hve auðvelt honum er að eiga samstarf við þetta fólk. Þessu kynntust Íslendingar á heimavelli á tímum útrásar.

Á Alaska Dispatch má sjá fréttir af hringborðinu eða í tengslum við það. Þar á meðal þessa frétt sem endursögð var á Evrópuvaktinni.