5.10.2013 23:30

Laugardagur 05. 10. 13

Þess er minnst á nokkrum fundum núna um helgina að fimm ár eru liðin frá hruni bankanna. Enginn atburður í Íslandssögunni hefur verið betur rannsakaður. Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, var ákærður og svaraði til saka fyrir landsdómi. Hann var sakfelldur fyrir formsatriði sem hafði í raun ekkert með hrun bankanna að gera. Meirihluti landsdóms túlkaði ákvæði stjórnarskrárinnar um ríkisstjórnarfundi á nýstárlegan hátt fyrir þá sem höfðu setið í ríkisstjórn eða skráð fundargerðir hennar.

Aðdragandi hrunsins var rannsakaður af nefnd á vegum alþingis. Nefndarmenn lögðu mikla áherslu á innlenda stjórnsýsluhlið málsins. Hvergi annars staðar hefur verið lögð jafnrík áhersla á opinbera stjórnsýsluhætti eins ríkis í umræðum um hinn alþjóðlega fjármálavanda.

Íslenskir bankar störfuðu í samræmi við evrópskar reglur og undanfarin ár hefur verið unnið að breytingum á þeim af því að þær reyndust gallaðar – hafi verið um stjórnsýsluvanda að ræða má rekja hann til EES-samningsins og reglna í samræmi við hann.

Viðbrögðin við hruninu fólust í neyðarlögunum sem hafa reynst heilladrjúg. Á fimm ára afmæli hrunsins er forvitnilegast að velta fyrir sér afleiðingum þess og hvernig ríkisstjórnin frá 1. febrúar 2009 hélt á málum.