4.10.2013 22:41

Föstudagur 04. 10. 13

Vek athygli á lofsamlegri grein í The New York Times um Ísland eins og má sjá hér.

Stefán Ólafsson er prófessor við Háskóla Íslands. Hann heldur úti vefsíðu og sagði þar í dag (4. október):

„Ég hef lengi haft taugar til Evrópu. Þess vegna hrekk ég oft við þegar ég les skrif um Evrópu og ESB hér á landi. Þar er yfirleitt dregin upp svo hrikaleg mynd af einu og öllu sem evrópskt er.

Þegar fjallað er um kreppuna er eins og Evrópa standi  öll í björtu báli – eða að allt sé að hrynja hjá þeim greyjunum!

Slíkar hörmungarfréttir af Evrópu, sem finna má hjá íslenskum þráhyggjubloggurum, ellibelgjum á Evrópuvaktinni og Hádegismóra á Mogganum, að ógleymdum æsingamönnum á ÍNN, hafa vakið mér óhug  og áhyggjur af vinum mínum í Evrópu.“

Ég er annar „ellibelgjanna“ á Evrópuvaktinni. Þetta orðaval um okkur Styrmi Gunnarsson er hvorki til marks um mikla virðingu fyrir okkur né almennt þeim sem eru eldri en prófessorinn. Þyki slíkt orðbragð við hæfi af rjóma íslenskra menntamanna í Háskóla Íslands er ekki mikils af vænta af þeim sem minna mega sín gagnvart hinni einstöku elítu menntamanna.

Á Evrópuvaktinni er í dag birt frásögn af fundi menntamanna, embættismanna og stjórnmálamanna í Brussel þar sem þeir lýsa áhyggjum af Evrópusambandinu eins og lesa má hér. Hvaða uppnefni ætli Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, velji þeim sem þarna eru nefndir til sögu?