1.10.2013 22:20

Þriðjudagur 01. 10. 13

Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, var undrandi á sumum spurningum Helga Seljans í Kastljósi kvöldsins sem snerist um fjárlagafrumvarpið sem Bjarni lagði fyrir þingið í dag. Spurningarnar voru í anda fréttastofu ríkisútvarpsins sem hleypur í skotgrafir í stað þess að leitast við að kynna hlustendum eða áhorfendum heildarmyndinni. Markmið fjárlagafrumvarpsins er skýrt: að stöðva skuldasöfnun undanfarinna ára.

Takist ekki að koma böndum á ríkisfjámálin halda skuldir áfram að aukast og sífellt stærri hluti ríkisútgjalda rennur til greiðslu á vöxtum. Um 85 milljarðar króna renna nú árlega úr ríkissjóði til að standa í skilum við lánardrottna ríkisins. Fyrir um það bil 20 árum stóð fyrsta ríkisstjórn Davíðs Oddssonar með Friðrik Sophusson sem fjármálaráðherra í sömu sporum og ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar nú í baráttu við íþygjandi ríkisskuldir. Við sem kynntumst breytingunni sem varð við að sigur vannst í þeim slag hljótum að óska núverandi ríksstjórn velfarnaðar í fjárlagastríðinu.

Til marks um skrýtna meðferð ríkisútvarpsins á fjárlagafrumvarpinu má nefna að efni frumvarpsins hafði ekki fyrr verið kynnt í fréttum klukkan 18.00 en birt var yfirlýsing Páls Magnússonar útvarpsstjóra um að ríkisútvarpið fengi illa útreið, gerð væri 7% krafa um hagræðingu hjá ríkisútvarpinu þótt í skýringum fjárlagafrumvarpsins væri annað sagt. Að mati Páls rýrir frumvarpið afkomu stofnunarinnar á næsta ári um rúmlega 260 milljónir króna.