25.9.2013 22:20

Miðvikudagur 25. 09. 13

Í dag ræddi ég við Erlend Sveinsson, forstöðumann Kvikmyndasafns Íslands, í þætti mínum á ÍNN. Þáttinn má sjá klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Nokkuð uppnám varð við tilkynningu Sigurðar Inga Jóhannssonar umhverfisráðherra um að hann ætlaði að fara yfir ný náttúruverndarlög sem samþykkt voru fyrir kosningar með gildistöku 1. apríl 2014. Var það orðað þannig af ráðuneyti ráðherrans að hann hefði „afturkallað“ lögin. Það er ekki á hans valdi. Hann getur hins vegar lagt fram frumvarp að nýjum lögum sem afnema lögin fyrir gildistöku þeirra enda samþykki alþingi það.

Um það var deilt fyrir þinglok hvort afgreiða ætti frumvarp að náttúruverndarlögum og niðurstaðan varð, til að málið næði fram að ganga, að gildistakan yrði ekki fyrr en 1. apríl 2014. Þessari aðferð er beitt við afgreiðslu mála rétt fyrir kosningar til að nýju þingi gefist færi á að skoða umdeild mál að nýju, aðferðinni er beitt til að koma til móts við stjórnarandstöðu. Hún sigraði í þingkosningunum 27. apríl 2013 og ekki óeðlilegt að hún nýti rétt sinn til að fara yfir málið áður en hin nýju lög taka gildi.

Orðbragðið sem Svandís Svavarsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, og talsmenn umhverfisamtaka nota um ákvörðun Sigurðar Inga ber vott um yfirgangssemi og virðingarleysi fyrir lýðræðislegum vinnubrögðum.

Gunnar Gunnarsson, fréttamaður Spegils ríkisútvarpsins, fór á kostum í dag þegar hann ræddi við fortstjóra Marorku og reyndi að fá hann til staðfesta að fyrirtækið ætlaði að flýja land og krónan væri ónýt. Forstjórinn sagði fyrirtækið ekki á förum og krónan væri nýtileg. Hann féllst ekki á fordóma Gunnars.