21.9.2013 22:10

Laugardagur 21. 09. 13

Veðrið var bjart og kyrrt þegar Fljótshlíðingar smöluðu í dag. Ég gekk um Þríhyrningshálsa og var hugsað til Njálu. Af hálsunum sést til allra átta og þaðan er unnt að fylgjast vel með mannaferðum, skjól er af Þríhyrningi í norðri og leiðin upp á hálsana er um mýrlendi sem ekki er auðvelt yfirferðar á hestum. Oft hef ég gengið í þúfum en aldrei jafnstórum og erfiðum og á hluta leiðarinnar suður af hálsunum.

Skýrt var frá niðurstöðu Gallup-könnunar sem sýnir að Besti flokkurinn er nýtur mest stuðnings flokka í Reykjavík. Nú hefur Jón Gnarr tekið til við að saka þá um einelti sem láta þess getið hvers son hann er og segir Jón það framhald á einelti Sjálfstæðisflokksins í garð föður síns sem hafi verið kommúnisti og þess vegna ekki fengið þann frama innan lögreglunnar sem honum bar. Sumum finnst þetta hugvitsamleg flétta. Hún er hins vegar bæði langsótt og út í hött. Henni er aðeins ætlað að draga athygli frá  kjarna málsins í gagnrýni manna á Jón Gnarr, að hann hafi haldið þannig á málum sem borgarstjóri að ekki sé til neinnar fyrirmyndar. Hann gerir lítið úr þeim sem eru honum ósammála í því skyni að setja þá út af laginu í von um eiga síðasta orðið. Enginn stjórnmálamaður hefur áður gengið fram á þennan hátt.