20.9.2013 23:55

Föstudagur 20. 09. 13

Í gær sagði ég frá aðdáun Kolbrúnar Bergþórsdóttur á Jóni Gnarr borgarstjóra fyrir ást hans á mannréttindum. Hann væri annars eðlis en íslenskir stjórnmálamenn vegna ríks skilnings á málefnum þeirra sem ættu undir högg að sækja. Erlendir rithöfundar hefðu flykkst að honum í veislu vegna einstæðs málflutnings hans um mannréttindamál.

Daginn eftir að lofgrein Kolbrúnar birtist í Morgunblaðinu birtist frétt á ruv.is um að mannréttindi væru brotin á fólki með þroskahömlum í sjálfri borg hins lofaða borgarstjóra.

Kaffihúsinu GÆS sem hafði verið rekið af fólki með þroskahömlun var lokað vegna þess að ekki náðust samningar við rekstraraðila hússins um áframhaldandi starfsemi. Kaffi GÆS var starfrækt í Tjarnarbíói af Bandalagi sjálfstæðra leikhúsa sem rekur Tjarnarbíó fyrir Reykjavíkurborg sem á húsið.

Anna Kristinsdóttir, mannréttindafulltrúi Reykjavíkurborgar, sagði við fréttastofu ríkisútvarpsins að hjá borginni væri vilji til til að halda rekstri kaffihússins áfram en það flækti málin að Reykjavíkurborg styrkti kaffi GÆS og væri því í samkeppni við önnur kaffihús í miðbæ Reykjavíkur.

Að sögn Önnu fælist vandinn þó einkum í að það vantaði húsnæði. Í frétt ríkisútvarpsins sagði: „Lokun GÆSar kom starfsfólki kaffihússins í opna skjöldu.“

Mannréttindafulltrúi Reykjavíkurborgar er ráðalaus vegna þess að fólki með þroskahömlum er bannað að reka kaffihús í húsnæði Reykjavíkurborgar.

Að sjálfsögðu á mannréttindafulltrúinn ekki síðasta orðið í þessu máli heldur borgarstjórinn, Jón Gnarr. Hann kýs hins vegar að skýla sér á bakvið skrifstofuvaldið þótt hann sé auðvitað ekki kerfiskarl heldur mannréttindafrömuður.