5.9.2013 21:00

Fimmtudagur 05. 09. 13

Í gær taldi ég augljóst að fréttastofa ríkisútvarpsins vildi gera forseta Íslands tortryggilegan þegar hún tíundaði í frétt um svikahrapp að forseti hefði náðað hann. Af viðbrögðum venjulegra hlustenda mátti ráða að hér lægi fiskur undir steini enda var framsetning fréttastofunnar á þann veg. Ég lýsti því gangi náðunarmála hér á síðunni.

Fréttastofa ríkisútvarpsins hefur ekki séð ástæðu til að biðja forseta Íslands afsökunar heldur birti hún „frétt“ í hádeginu í dag um náðanir þar sem sagði meðal annars:

„Sækja þarf sérstaklega um náðun og starfar þriggja manna náðunarnefnd á vegum innanríkisráðuneytisins sem fer yfir allar beiðnir. Nefndin leggur mat á þær og gerir tillögu um afgreiðslu til ráðherra. Endanleg ákvörðun er á valdi ráðherra og þarf undirskrift hans og forseta til að náðunin taki gildi. Almennt mun farið eftir niðurstöðu nefndarinnar og hefur hvorki ráðherra né forseti neitað að undirrita tillögur nefndarinnar um náðun samkvæmt úttekt fréttastofu í fyrra. […] Að sögn innanríkisráðuneytisins hafa allar náðanir verið veittar á grundvelli alvarlegra veikinda. Á síðastliðnum áratug hefur einn maður þurft að afplána fangelsisdóm þrátt fyrir náðun, þar sem hann hélt ekki skilyrði náðunar.

Mikil leynd ríkir um hverjir fá náðun. Beiðnum fréttastofu um slíkar upplýsingar hefur verið hafnað þegar þær hafa verið sendar. Hefur þá verið vísað til þess að í slíkum skjölum sé að finna viðkvæmar persónuupplýsingar, meðal annars um heilsu viðkomandi.“

Aðeins sérfræðingar í Efstaleitisfræðum skilja hvaða erindi þessi „frétt“ átti við hlustendur – er „fréttin“ að fréttastofan hafi gert einhverja úttekt í „fyrra“?! Eða að leynd hvíli yfir nöfnum þeirra sem eru náðaðir? Það hefði verið frétt ef fréttastofan hefði skýrt frá hvar hún fékk staðfestingu á að svikahrappurinn hefði verið náðaður og hvenær. Auðvitað var og er þetta engin frétt heldur aumlegt yfirklór manna sem hafa ekki þrek til að biðja forseta Íslands afsökunar þegar þeir hlaupa á sig.

Hvers vegna hefur almenningur ekki frelsi til að ákveða hvort hann vill fjármagna þessa starfsemi?