29.8.2013 20:45

Fimmtudagur 29. 08. 13

Jón Gnarr borgarstjóri snerist til varnar fyrir nýja aðalskipulagið í fréttatímum ríkisútvarpsins í dag og hafnaði sjónarmiðum þeirra sem telja mikilvægt öryggismál að Reykjavíkurflugvöllur standi nærri Landspítalanum. Hann gat auðvitað ekki fært nein rök fyrir sjónarmiði sínu heldur talaði eins og þetta mundi allt reddast þótt flugvöllurinn yrði fluttur. 

Augljóst er að borgarstjóra hefur verið att á foraðið vegna þess að málsvarar skipulagsins eru í öngum sínum vegna hinnar miklu andstöðu við það sem birtist í meira en 60.000 undirskriftum til stuðnings flugvelli í Vatnsmýrinni.

Það er óralangur vegur frá því að Hólmsheiði gæti talist raunhæfur kostur sem flugvallarstæði fyrir miðstöð íslensks innanlandsflugs. Bæði Flugfélag Íslands sem hefur sinnt mest öllu áætlunarflugi til og frá Reykjavík undanfarin 75 ár og Isavia ohf. sem rekur alla flugvelli á Íslandi, hafa fyrr í ár alfarið og formlega hafnað þeim kosti.

Þrátt fyrir þessa staðreynd lagði Arnar Páll Hauksson, fréttamaður ríkisútvarpsins, ögrandi og hlutdrægar spurningar fyrir viðmælanda sinn í Speglinum í kvöld sem hefðu hæglega verið samdar af þeim sem hundsa allar staðreyndir í umræðunni um flugvöllinn í Vatnsmýrinni og láta enn eins og unnt sé að finna annan stað fyrir innanlandsflugvöll í Reykjavík.