28.7.2013 23:10

Sunnudagur 28. 07. 13

Ólafsvakan er hafin í Færeyjum til minningar um Ólaf helga. Þar minnast menn sögu sinnar og þjóðmenningar með því að heiðra Ólaf hinn helga Noregskonung. Siðaskiptin megnuðu ekki að rjúfa þessi tengsl við hin kristilegu gildi sem móta þjóðarsöguna. Unnt var að fylgjast með setningu vökunnar í færeyska sjónvarpinu í kvöld.

Í dag lauk Reykholtshátíð í Borgarfirði, frú Agnes M. Sigurðardóttir biskup flutti prédikun í hátíðarmessu. Tónlistarhátíðinni lauk á píanókvartett eftir J. Brahms í glæsilegum flutningi Ara Þórs Vilhjálmssonar fiðlu, Ásdísar Valdimarsdóttur lágfiðlu, Bryndísar Höllu Gylfadóttur selló og Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur píanó.

Kirkjan var þéttsetin og flytjendum var innilega fagnað í lok tónleika.

Það var skýfall utan dyra og mátti heyra þrumur í þögn milli kafla í flutningi kvartettsins.