26.7.2013 22:34

Föstudagur 26. 07. 13

Undanfarin ár hafa Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon látið eins og stjórn þeirra á ríkisfjármálum og efnahagsmálum hafi tryggt Íslendingum aðra og betri stöðu en öðrum þjóðum sem fóru illa út úr alþjóðlegu bankarkreppunni. Ríkisreikningur síðasta árs stjórnar Jóhönnu var birtur á dögunum.

Hagfræðideild Landsbankans segir að niðurstaða reksturs ríkisins á árinu 2012 hafi verið tvöfalt verri en lagt var upp með í fjárlagafrumvarpi ársins. Fjárlagafrumvarpið var upphaflega lagt fram með 18 milljarða halla en endanleg niðurstaða varð 36 milljarða halli. Deildin segir að skuldastaða ríkisins sé mjög alvarleg og mun verri en gerist í flestum nálægum ríkjum. Á árinu 2012 hafi tæplega 15% tekna ríkisins runnið í vaxtagreiðslur. Sú upphæð nemi tvöföldum rekstri Landspítalans á árinu 2013. Það sé því mjög mikilvægt að ná tökum á rekstri ríkisins, skapa afgang og hefja niðurgreiðslu skulda.

Hagfræðideildin segir að skuldastaða ríkissjóðs hafi verið orðin „vel ásættanleg“ fyrir hrun en á hinn bóginn numið 1.950 milljörðum króna um síðustu ármót þar af hafi lífeyrisskuldbindingar verið um 390 milljarðar króna. Sé miðað við hlutfall heildarskulda af vergri landsframleiðslu hafi það hlutfall farið yfir 117% á árinu 2011, en lækkaði niður í 114% á árinu 2012. „Þetta hlutfall er mjög hátt í sögulegu samhengi, en einnig í samanburði við þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við,“ segir hagfræðideildin.

Árið 2012  var skuldahlutafallið yfir 100% í fjórum evru ríkjum: Grikkland 156,9%, Ítalíu 127%, Portúgal 123,6% og Írlandi 117,6%. Hvergi telja menn að þjóðir þessara landa standi vel að vígi.