23.7.2013 22:41

Þriðjudagur 23. 07. 13

Jónas Haraldsson lögfræðingur ritar athyglisverða grein í Morgunblaðið í dag um meðferð kínverska ríkisins á húseign sinni við Víðimel í Reykjavík. Engu er líkara en Kínverjar líti þannig á að húsið sé einskis nýtt eftir að þeir yfirgáfu það og þeir ætli að láta það grotna niður sjálfum sér til skammar.

Þetta er ekki fyrsta dæmið um að nágranni erlends sendiráðs í Reykjavík kvarti undan nábýlinu. Nágrannar rússneska sendiráðsins við Garðastræti hafa lent í útistöðum við rússnesk yfirvöld án þess að íslensk stjórnvöld geti látið málið sig varða vegna úrlendisréttar sendiráða, þau eru í raun hluti þess ríkis sem á þau og innlendum yfirvöldum er bannað að láta að sér kveða innan þeirra eða á lóðum þeirra.

Jónas segir meðal annars í grein sinni:

„Ekki er hægt að líta á hús sem einhvern hlut eða drasl, sem eigandinn er hættur að nota eða búinn að fá leið á og hefur hent út í kompu, en ætlar kannski að nota einhvern tímann í framtíðinni ef svo ber undir. Hér mætti taka tillit til okkar næstu nágranna.“

Kínverskir sendiráðsmenn svöruðu ekki fréttamönnum sem leituðu viðbragða þeirra við grein Jónasar. Þau kunna að verða á þann hátt að um móðgun í garð kínverska ríkisins sé að ræða og íslenskum stjórnvöldum beri að verja hagsmuni kínverskra yfirvalda gagnvart gagnrýni af þessu tagi. Viðbrögðin kunna einnig að verða þau að Kínverjar taki sig saman í andlitinu og hressi upp á húseign sína og garðinn sem henni fylgir eða selji þessa eign. Áður en til þess kemur eiga þeir áreiðanlega eftir að fínkemba hana til að afmá allt sem vekja kann grunsemdir um óvenjulega starfsemi í húsinu.