17.7.2013 22:17

Miðvikudagur 17. 07. 13

Í dag ræddi ég við Vilhjálm Bjarnason, þingmann Sjálfstæðisflokksins, í þætti mínum á ÍNN og má næst sjá þáttinn á miðnætti og síðan á tveggja tíma fresti til 18.00 á morgun. Þar kemur meðal annars fram að Vilhjálmur er í sambandi við alþjóðlegan lögfræðing sem hefur áhuga á úrlausn mála gagnvart kröfuhöfum í þrotabú bankanna. Í raun er illskiljanlegt hvers vegna ekki hefur verið myndað alþjóðlegt teymi lögfræðinga til að takast á við kröfuhafana og knýja fram lausn.

Ég spurði Vilhjálm hvort þetta uppgjörsmál væri í raun í verkahring stjórnmálamanna eða hvort þeir skiptu sér af því þar sem þeir treystu ekki Seðlabanka Íslands. Hann svaraði á þá leið að þarna kæmi einnig til álita þörfin á að eigna sér lausn. Samfylkingin vildi ekki vinna að þessu máli og afnámi gjaldeyrishaftanna af því að hún taldi að nýta ætti höftin til að knýja á um ESB-aðild, það féll hins vegar vel að stefnu VG að halda í höftin, þau eru í anda ofríkisstefnu flokksins.

Nú eru nýir stjórnarherrar sestir í ráðherrastóla. Þeir semja ekki um uppgjör á þessum skuldum við kröfuhafa. Þeir verða hins vegar að móta stefnu og sjá til þess að henni sé fyglt fram. Alþjóðlegir lögmenn sem þekkja sjóðina sem í hlut eiga og hafa orð á sér fyrir hörku í þágu sinna umbjóðenda eru best fallnir til að gæta hagsmuna Íslendinga í þessu mikla uppgjörsmáli.