14.7.2013 23:10

Sunnudagur 14. 07. 13

Forvitnilegt er að fylgjast með hvernig dagblöð fikra sig inn á þá braut að heimta gjöld fyrir aðgang að efni þeirra á netinu. Nú hefur The Daily Telegraph sett reglu um að unnt sé að nálgast 10 greinar endurgjaldslaust en vilji maður lesa fleiri ber að skrá sig, þá fær maður ókeypis aðgang í 30 daga að öllu efni en greiðir síðan 1,99 pund á mánuði sem tekið er af kreditkortinu.

Þá hefur The New York Times einnig lagt hart að þeim sem nota vefsíðu blaðsins að gerast áskrifendur og greiða lagt gjald. Blaðið lokaði um tíma aðgangi að ýmsu efni nema menn greiddu fyrir hann en opnaði síðan aftur.

Ég veit ekki betur en allir sem eru áskrifendur að prentaðri útgáfu þessara blaða fái jafnframt hindrunarlausan aðgang að netútgáfunni, það sé talið í hlutarins eðli og gildir til dæmis um vikuritið The Economist.

Áskrifendur að prentútgáfu Morgunblaðsins geta lesið blaðið á netinu en vilji þeir nálgast það í gegnum iPad verða þeir að greiða sérstakt gjald auk þess sem þeir hafa almennt takmarkaðan aðgang að greinasafni blaðsins.

Prentmiðlar keppast við að búa í haginn fyrir að prentvélarnar hverfi og sambandið við lesandann verði aðeins á netinu. Þeir verða að ná í sem flest nöfn og netföng til að tryggja sér viðskiptavini auk þess að fá þá til að greiða fyrir þjónustuna.

Miðað við þjónustu erlendra miðla standa hinir innlendu höllum fæti. Þótt alla skipti máli að vita hvað gerist á heimavelli skiptir mat á erlendu fréttaefni miklu og að það skírskoti á einn eða annan hátt til innlendra lesenda. Þessi miðlun krefst þekkingar og áhuga blaðamanna sem minnkar eftir því sem minni áhersla er lögð á erlendar fréttir í íslenskum fjölmiðum almennt. Það er mikil afturför, leiðir til fáfræði, ranghugmynda og minnimáttarkenndar.