12.7.2013 23:20

Föstudagur 12. 07. 13

Mánudaginn 8. júlí var Placido Domingo söngvari lagður inn á sjúkrahús í heimaborg sinni Madrid vegna blóðtappa í lunga. Sagt var frá þessu á vefsíðunni mbl.is þriðjudaginn 9. júlí. Þar stóð:

„Spænski stórtenórinn Placido Domingo var í dag lagður inn á spítala vegna blóðtappa í lunga.

Söngvarinn, sem er 72 ára, mun að sögn lækna ná fullum bata. Læknar söngvarans ráðlögðu honum hins vegar að taka sér þriggja til fjögurra vikna hvíld, og hefur hann því þurft að hætta við fimm tónleika.

Domingo varð heimsfrægur sem hluti af Tenórunum þremur, ásamt Luciano Pavarotti og Jose Carreras.“

Þessi stutta frétt ber ekki með sér mikla vandvirkni. Í fyrsta lagi er ekki sagt hvar Domingo var þegar hann veiktist, grundvallarregla er að geta þess hvar atburður gerist. Í öðru lagi er ekki sagt rétt frá hvenær hann veiktist, dagsetningin er röng. Hann var lagður inn 8. júlí ekki hinn 9. Í þriðja lagi felst undarlegt mat í þeim orðum að Domingo hafi hlotið heimsfrægð með því að syngja með Pavarotti og Carreras. Þeir tóku að syngja saman af því að þeir voru heimsfrægir en ekki til að öðlast heimsfrægð.